ÁGRIP AF SÖGU ÁLSTEYPU HJÁ HELLU

Málmsmiðjan Hella hf. var stofnuð 11. maí 1949. Starfsemin hófst í gamalli hlöðu við Haga í Reykjavík. Að stofnuninni stóðu Leifur Halldórsson módelsmiður og Róbert Færgeman, danskur málmsteypumaður sem þá bjó hér á landi, ásamt nokkrum öðrum góðum mönnum sem höfðu framsýni til að leggja góðu máli lið. Allra hluta, efna og tækja varð að afla hér innanlands, sökum mjög strangra innflutningshafta. Vélar, áhöld og tæki varð ýmist að smíða eða útbúa eftir megni úr gömlum tækjum.

Steypt var úr ál- og koparblöndum. Hráefnið var gamlir brotamálmar, álið að mestu fengið úr gömlum flugvélaflökum sem menn gengu jafnvel upp til fjalla til að sækja þau. Framleiðsla fyrstu áranna stjórnaðist mest af þeirri þörf sem var í landinu sökum fyrrnefndra innflutningshafta. Í fyrstu voru framleidd búsáhöld, svo sem pottar og pönnur, svo og ýmsir hlutir til viðhalds á vélum og tækjum. Fljótlega hófst svo framleiðsla á brynningatækjum fyrir fjós, hlutum í reiðtigi, innhlutum í klósettkassa og sorprennulokum.

Árið 1957 flutti Hella í fyrsta hluta nýbyggingar við Síðumúla í Reykjavík. Þá hafði framleiðslan þróast nokkuð. Auk fyrrnefndra verkefna hófst framleiðsla á handsnúnum handfæravindum, hverfisteinahúsum, rafmagnstöflukössum og ýmisskonar rafmagnstengikössum. Einnig voru framleidd viktarlóð fyrir frystihúsin, skilti, bæði vegvísar og skildir á leiði og legsteina, auk ýmissa skrautmuna og fleira þess háttar. Nú fóru ýmsir vélaframleiðendur að nýta sér í auknum mæli þjónustu Hellu hf. til að steypa íhluti í framleiðsluvörur þeirra. Má þar nefna til dæmis Jötun hf. sem framleiddi rafmótora og Electra Tæki hf. sem hóf framleiðslu á rafknúnum handfæravindum og netaspilum á sjöunda áratugnum. Á áttunda áratugnum, eða eftir að Ísal tók til starfa, var farið að vinna eftir ýmsum möguleikum sem þá sköpuðust með blöndun áls sem hentaði mismunandi aðstæðum. Álið var til dæmis blandað kísil sem gaf aukna steypuhæfni og sveigjuþol í vegvísa fyrir Vegagerð ríkisins og raflínubúnað fyrir RARIK og Landsvirkjun.

Kísilálið var einnig notað í fastsetningapolla, kraftblakkarkjamma og fleira í báta og skip. Þessar stöðluðu álblöndur gerðu kleift að gera marktækar mælingar á brotþoli og sveigjuþoli steyptra hluta hjá Iðntæknistofnun Íslands og með árunum jókst nákvæmni og þekking á efnismeðferð, steypuhita, hitameðferð og fleiru sem skiptir miklu máli um að ná góðum árangri. Á níunda áratugnum jókst notkun á magnesíumblönduðu áli. Þessi blanda sem inniheldur 2-5% Mg hentar vel þar sem selta veldur tæringu, til dæmis í fiskvinnsluvélar og veiðafærabúnað. Sem dæmi um viðskiptavini sem nota þessar álblöndur má nefna Baader Ísland, DNG Sjóvélar, Elektra Tæki hf., Fiskvélar ehf. og fleiri.

Álblöndur með Mg innihald yfir 3% eru mjög erfiðar og vandasamar í steypu. Hefur verið unnið mikið tilraunar og þróunarstarf innan fyrirtækisins á undanförnum árum og má segja að það starf sé grundvöllur þeirrar vinnslu í dag. Þær tilraunir eru enn í gangi og enn er leitað betri árangurs á tæringarþoli og öðrum efnisgæðum til framþróunar í samstarfi við Iðntæknistofnun Íslands.

Sem framhald þróunarstarfs á meðferð steypuáls má nefna skautlásabúnað sem unninn var í samstarfi við Ísal. Þar er um að ræða álblöndu með kopar sem aðalíblöndun auk fleiri efna. Hinir steyptu hlutir eru síðan hitameðhöndlaðir á sérstakan hátt sem gefur þeim aukinn brotstyrk. Hefur þessi búnaður reynst mjög vel, bæði hjá Ísal og Söral í Noregi.

Framleiðsluvörur Hellu hf. nú eru helstar auk skautlásanna, raflínubúnaður í háspennulínur og háspennuvirki, upphækkunarsett fyrir bíla, ýmis tæki til matvælavinnslu, fastsetningapollar og fleira fyrir skip og báta, vegvísar og skilti. Þá er framleiðsla steyptra íhluta til framleiðslu fiskveiði- og fiskvinnslubúnaðar fyrir framleiðendur þeirra tækja, og má segja að hver málm- og vélsmiðja í landinu teljist til viðskiptavina Hellu hf. Flest orkudreifingarfyrirtæki landsins kaupa af Hellu hf. ýmsan raflínu- og vatnstengibúnað og skipta framleiðsumót Hellu hf. á því sviði mörgum hundruðum.

Sem dæmi um nýja framleiðslu má nefna útibekki og afmörkunarpolla á opin svæði fyrir sveitarfélög og ekki síst framleiðslu á tengibúnaði á fiskidæluslöngur fyrir loðnu-, síldar- og skelfiskveiðiflotann. Þar hefur orðið ævintýraleg aukning síðustu árin og notar nánast allur loðnu- og síldarflotinn búnað frá Hellu hf. Innflutningur á þessum tengjum hefur nú að mestu lagst af og söluaðilar slangnanna selja nú íslensk tengi.

Hér hefur eingöngu verið stiklað á stóru í framleiðsluferli Hellu hf. og aðeins nefnt það sem tilheyrir álframleiðslu, en hlutur koparsteypu er einnig stór í rekstrinum og verður ekki rakinn hér. Reksturinn hefur verið í sérhönnuðu húsnæði að Kaplahrauni 5 í Hafnarfirði. Síðan í byrjun árs 1987 var nafni Málmsmiðjunnar Hellu hf breytt og heitir síðan Málmsteypan Hella ehf.

ÞORVALDUR HALLGRÍMSSON

Framkvæmdarstjóri

LEIFUR ÞORVALDSSON

Málmsteypumeistari

GSM: 895-1187

GRÉTAR MÁR ÞORVALDSSON

Frummótasmíðameistari

GSM: 898-5988

TRYGGVI JÓNSSON

Vélsmiður

DAVÍÐ FRIÐJÓNSSON

Málmsteypumaður

SMÁRI LEÓ LEIFSSON

Vélsmiður